Fyrirtæki

 Lýsing fjármagnar flestar tegundir atvinnutækja og bifreiða.

Einstaklingar

Þegar þú hefur fundið réttu bifreiðina er næsta skref að velja réttu fjármögnunarleiðina:

Tilkynningar

24.03.2014 – Lýsing kaupir Lykil

 

Lýsing hf. hefur keypt og MP banki hefur selt rekstur Lykils, eignaleigusviðs MP banka. Samningar um kaupin voru undirritaðir föstudaginn 21. mars sl.

 

Sala MP banka á Lykli er liður í því að skerpa enn frekar á sérhæfðri bankaþjónustu MP banka og um leið að einfalda skipulag bankans og auka áherslu á kjarnastarfsemi. Kaup Lýsingar á Lykli falla einnig vel að fjármögnunarstarfsemi Lýsingar og áætlunum félagsins um sífellt öflugri starfsemi og markaðssókn.

 

Vel heppnuð uppbygging Lykils
Þann 23. mars 2012 tók eignaleigusvið MP banka til starfa undir heitinu Lykill. Lykill býður bílasamninga, bílalán og kaupleigusamninga til fjármögnunar atvinnutækja.
Starfsemin verður áfram rekin undir vörumerkinu Lykill og réttindi og skyldur samkvæmt samningum haldast óbreyttar gagnvart viðskiptavinum.

 

„MP banka hefur gengið vel að byggja upp eignaleigustarfsemina undir vörumerki Lykils og tekist að skapa sterkt vörumerki á þeim stutta tíma sem Lykill hefur starfað. Við höfum verið að einfalda rekstur bankans með það að markmiði að efla enn frekar þjónustu við kjarnaviðskiptavini bankans með áherslu á að veita fyrsta flokks sérhæfða bankaþjónustu. Sala Lykils er rökrétt skref í þeirri vinnu. Það er enn fremur jákvætt að leiðandi aðili á sviði eignaleigu á borð við Lýsingu kaupi rekstur Lykils,“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka.

 

„Kaup Lýsingar á Lykli undirstrika áform félagsins um frekari uppbyggingu og áframhaldandi forystu á sínu sviði. Í áætlunum Lýsingar um öflugri starfsemi félagsins felst meðal annars að bjóða upp á nýjungar á sviði fjármögnunar eins og markaðurinn varð var í upphafi ársins þegar kynnt voru ný vaxta- og verðbótalaus lán. Við hlökkum til samstarfsins við viðskiptavini Lykils og fögnum þessari viðbót í starfsemi Lýsingar,“ segir Lilja Dóra Halldórsdóttir, forstjóri Lýsingar.

 

Kaupin eru háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins og verða að því fengnu tilkynnt viðskiptavinum Lykils með bréfi.

 

Um MP banka hf.
MP banki hf. á rætur sínar að rekja til ársins 1999 og starfa 115 starfsmenn í samstæðu bankans. Forstjóri er Sigurður Atli Jónsson og formaður stjórnar er Þorsteinn Pálsson. Eignarhald MP banka er gagnsætt og er hann eini bankinn sem er að fullu í eigu einkaaðila s.s. lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. MP banki sérhæfir sig í að veita alhliða þjónustu á sviði eignastýringar og fjárfestingarbankastarfsemi ásamt því að veita íslenskum fjárfestum, sparifjáreigendum og atvinnulífi úrvals bankaþjónustu. Afkomueiningar MP banka verða eftir þessa breytingu banki, markaðir og eignastýring. Nánar á: http://www.mp.is/

 

Um Lýsingu hf.
Lýsing er í fararbroddi fyrirtækja á sviði fjármögnunar á atvinnutækjum og bifreiðum fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Félagið kappkostar að veita góða og skjóta þjónustu og er vakandi fyrir nýjum tækifærum á markaðnum. Lýsing er með elstu fjármálafyrirtækjum landsins en félagið var stofnað árið 1986 og hefur starfað óslitið frá þeim tíma. Starfsmenn voru upphaflega fjórir en eru nú um 50 talsins. Lýsing hf. er í 100% eigu Klakka ehf. Nánar á: http://www.lysing.is/

 

 

13.03.2014 - Hæstiréttur staðfestir fjármögnunarleigusamning Lýsingar

Hæstiréttur Íslands hefur í dag í máli nr. 638/2013 staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. september sl. um að fjármögnunarleigusamningar Lýsingar hf. séu ekki lánssamningar sem innihalda ólögmæt ákvæði um gengistryggingu. Um sé að ræða leigusamning þar sem aðilum var heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla.

 

Hæstiréttur hefur áður fellt dóma á þá lund að ekki sé ástæða til að efast um að fjármögnunarleigusamningar Lýsingar séu leigusamningar en ekki lánssamningar sem falla undir lög um vexti og verðtryggingu.

 

Skuldbindingar samkvæmt samningunum ber því að efna með hliðsjón af því.

28.02.2014 - Lýsing hf. flytur í Ármúla 1

 

Lýsing hf. flytur í Ármúla 1 og hefur starfsemi þar mánudaginn 3. mars 2014.

 

Vegna flutninganna í nýtt  húsnæði verður þjónustuvefur Lýsingar ekki aðgengilegur fram eftir degi laugardaginn 1. mars.  Lýsing biður viðskiptavini sína velvirðingar á þeirri röskun sem þeir kunna að verða fyrir af þessum sökum.

 

Öll starfssemi verður óbreytt,  þar með talin símanúmer og netföng.

20.01.2014 - Vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 661/2013

Hæstiréttur Íslands hefur sýknað Lýsingu af kröfu fyrrverandi samningshafa um frekari greiðslur en leiddu af endurreikningi félagsins á gengistryggðum samningi (mál nr. 661/2013). Með því sneri Hæstiréttur dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.


Lýsing telur dóminn skýra ákveðin álitaefni varðandi uppgjör gengistryggðra samninga og vera í samræmi við sjónarmið félagsins, sbr. t.d. tilkynningu á vef þess þann 3. júní og 2. september 2013. Jafnframt telur Lýsing að dómurinn sýni að mikil einföldun hafi einkennt umræðu um uppgjör gengistryggðra lána.


Í dóminum eru ítrekuð grundvallarskilyrði þess að beita megi undantekningarreglunni um fullnaðarkvittanir og að „heildarmat“ liggi reglunni til grundvallar. Henni verður einungis beitt þar sem viðbótarkrafa hefur í för með sér mikla röskun á fjárhagslegri stöðu skuldara, sem þarf að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð, þvert á væntingar sínar. Þeim mun meira sem óhagræði skuldarans er, því sterkari rök eru fyrir því að víkja frá meginreglunni um endurkröfurétt kröfuhafa.


Í dóminum var talið að fyrrverandi samningshafi Lýsingar gæti ekki borið fyrir sig svonefnda fullnaðarkvittun þar sem hvorki skilyrði um festu í framkvæmd samnings né heldur um verulega fjárhagslega röskun eftir endurreikning væru fyrir hendi. Niðurstaða dómsins bendir til þess að þegar viðbótarkrafan felst í endurútreikningi sem hefur verið gerður í kjölfar fordæma Hæstaréttar, en ekki beinni kröfu um peningagreiðslu, séu minni líkur á að skilyrði um röskun á fjárhagslegri stöðu séu uppfyllt.


Ljóst er að mál geta verið afar mismunandi frá einu tilviki til annars þótt þau séu tilkomin vegna sambærilegra löggerninga. Af því leiðir að varasamt er að gera ráð fyrir því að einstakt dómsmál svari öllum spurningum um ágreining vegna gengistryggðra lána þar sem atvik mála geta verið mismunandi.

13.01.2014 - Vaxtalaus lán - nýr fjármögnunarkostur

Lýsing hf. tók höndum saman við BL ehf. til að bjóða nýjan fjármögnunarkost, svonefnd vaxtalaus lán eða núllvaxtalán, m.a. til að bregðast við almennri tortryggni vegna skilmála í hefðbundnum lánasamningum einstaklinga, eyða óvissu en auka gagnsæi, einfaldleika og öryggi.

 

Vaxtalausu lánin eru að því leyti frábrugðin vaxtaberandi lánum að afborganir af þeim eru algerlega fyrirsjáanlegar og breytast ekki vegna vaxta, kostnaðar eða verðbólgu á lánstímanum. Með því er áhætta af utanaðkomandi þáttum, s.s. verðbólgu og vaxtabreytingum, færð frá lántaka til bifreiðaumboðsins og fjármögnunarfyrirtækisins.

 

Núllvextir BL eru varkár fjármögnun sem stuðlar ekki að áhættusækni þar sem lántaki leggur fram 60% eigið fé í upphafi. Horft er til þess að einstaklingar geti t.a.m. eignast nýjan fjölskyldubíl á verðbilinu 3–6 milljónir króna með því að nýta þennan valkost þótt hann takmarkist að sjálfsögðu ekki við þær fjárhæðir.

 

Óvíða er bifreið jafn þarfur þjónn og hér á landi. Engu að síður er meðalaldur bílaflota Íslendinga mun hærri en almennt í Evrópu. Regluleg endurnýjun er ekki síst nauðsynleg með tilliti til öryggis í umferðinni, mengunarhættu og hagkvæmni í rekstri, s.s. eldsneytisnotkunar og viðhalds.

 

Nýr valkostur Lýsingar og BL eykur möguleika á fjármögnun vegna bifreiðakaupa. Vaxtalaus lán eru viðbót við aðra fjármögnunarkosti sem staðið hafa neytendum til boða með hefðbundnum breytilegum vöxtum og kostnaði. Samningsfrelsi tryggir neytendum rétt til að velja og hafna um úrval fjármögnunarleiða eftir því sem hverjum og einum hentar best hverju sinni.

 

Samstarfið við BL markar tímamót hjá Lýsingu sem ákvað eftir árangursríka endurfjármögnun seint á liðnu ári að hrinda í framkvæmd áætlun um markaðssókn á nýjan leik með áherslu á nýjungar á fjármögnunarmarkaði.

 

 

20.12.2013 - Síðari endurreikningur samkvæmt áætlun

Síðari endurreikningur Lýsingar vegna gengistryggðra bílasamninga félagsins með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 50/2013 (Plastiðjan) gengur samkvæmt áætlun.

 

Lokið er endurreikningi á samningum sem voru óbreyttir frá upphafi, greiðslur af þeim ávallt í skilum og skuld, þ.e.a.s. viðbótarkrafa, myndaðist á veltureikningi samkvæmt fyrri endurreikningi í framhaldi og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010.

 

Þá er að mestu lokið síðari endurreikningi skilmálabreyttra samninga sem voru ávallt í skilum.

 

Eftir áramót verður tekið til skoðunar, með tilliti til fullnaðarkvittana, hvort og að hvaða marki samningar, sem greiddir voru dráttarvextir af á einhverju tímabili fyrir 16. júní 2010, koma til síðari endurreiknings.

 

Að öðru leyti vísast til tilkynningar félagsins frá 2. september sl.

22.10.2013 - Endurfjármögnun Lýsingar

Lýsing hefur lokið samningum um endurfjármögnun félagsins. Samningarnir eru mikilvæg traustsyfirlýsing við félagið og starfsfólk þess, en félagið er eitt fárra íslenskra lánafyrirtækja sem hafa staðið af sér áföll fjármálakreppunnar án ríkisstuðnings eða kennitölubreytingar.

 

Daglegur rekstur tekur ekki breytingum vegna endurfjármögnunarinnar.

 

Fyrri tilkynningar Lýsingar um varúðarráðstafanir í þágu viðskiptavina vegna ætlaðrar réttaróvissu halda gildi sínu. Sama á við um samkomulag við lánardrottna Lýsingar um að varasjóðir félagsins standi fyrst straum af endurgreiðslum til viðskiptavina vegna mögulegrar ofgreiðslu áður en þeim verði ráðstafað til greiðslu á öðrum skuldbindingum.

23.09.2013 - Hæstiréttur hafnar kröfu um lögbann

Hæstiréttur Íslands hefur hafnað kröfu Hagsmunasamtaka heimilanna um að fá lögbann sett á útsendingu og innheimtu greiðsluseðla Lýsingar hf.

 

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 519/2013 segir að í yfirlýsingum Lýsingar felist næg trygging fyrir því að hagsmunir lántakenda séu ekki fyrir borð bornir og að Hagsmunasamtök heimilanna hafi ekki lagt fram haldbær gögn sem styðji að ástæða sé til að óttast um greiðslugetu félagsins.

 

Í þessu sambandi má benda á nýlega samantekt Fjármálaeftirlitsins sem sýnir m.a. sterka eiginfjárstöðu Lýsingar.

 

Hæstiréttur staðfesti með dómi sínum úrskurð héraðsdóms sem var efnislega hinn sami og niðurstaða sýslumannsins í Reykjavík um að hafna bæri kröfu Hagsmunasamtaka heimilanna. Samtökin hafa verið dæmd til að greiða Lýsingu samtals 750 þúsund krónur í málskostnað. Lýsing telur að þeir fjármunir eigi að gagnast þeim sem standa höllum fæti, eins og upphaflega hefur verið ætlast til, og hefur ákveðið að skipta þeim jafnt milli samtaka sem Lýsing styrkir, Samhjálpar annars vegar og Þroskahjálpar hins vegar.

02.09.2013 - Síðari endurreikningur Lýsingar hf.

Í kjölfar Hæstaréttardóms í máli nr. 50/2013 (Plastiðjan), sem sneri að bílasamningi Landsbankans, ákvað Lýsing hf. að endurreikna aftur og leiðrétta sambærilega samninga viðskiptavina sinna með hliðsjón af niðurstöðu málsins. Samningarnir voru áður endurreiknaðir í framhaldi og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010.

 

Niðurstaða leiðréttingar með pósti

Mat hefur verið lagt á þau álitaefni sem tengjast leiðréttingu og er niðurstaðan m.a. byggð á álitsgerðum utanaðkomandi lögmanna. Niðurstaða vegna fyrstu leiðréttu samninganna verður send viðskiptavinum með bréfi á næstu dögum.

 

Lýsing gerir almennt ráð fyrir því að viðskiptavinir beri fyrir sig undantekningarregluna um svokallaða fullnaðarkvittun þegar skilyrði hennar eru fyrir hendi. Eru lögskipti aðila á endurreikningstímabilinu virt sem ein heild, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 50/2013. Niðurstaða svonefnds veltureiknings sýnir hvort samningshafi telst hafa of- eða vangreitt á tímabilinu eftir að greiðslur hafa verið leiðréttar vegna gengistryggingar og endurreiknaðar með vöxtum skv. 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Til leiðréttingar kemur viðbótargreiðsla sem bætt var við höfuðstól samnings við fyrri endurreikning.

 

Við endurreikninginn nú er, að teknu tilliti til dómafordæma, fyrst horft til bílasamninga sem voru með gengisviðmiði þar sem festa er komin á framkvæmd samnings, hann óbreyttur frá upphafi og greiðslur verið í skilum. Næst koma til leiðréttingar, í þeim tilvikum og á þann hátt sem við á, samningar með breyttum skilmálum sem alltaf hafa verið í skilum.

 

Uppgjöri lokið í vissum tilvikum

Samninga, sem voru uppgreiddir fyrir dóm Hæstaréttar hinn 16. júní 2010 í máli nr. 153/2010 og voru endurreiknaðir í fyrra sinnið, þarf ekki að leiðrétta á ný. Við uppgjörið í framhaldi af fyrri endurreikningi var greiddur út mismunur vegna ofgreiðslu, en Lýsing gerði ekki kröfu um viðbótargreiðslu hjá neytendum væri um hana að ræða. Þannig hafa þessir aðilar þegar hlotið uppgjör í samræmi við framangreint. Í einstaka tilfellum, í tilviki lög- og rekstraraðila, voru viðbótargreiðslur á slíkum samningum nýttar til skuldajöfnunar. Lýsing bíður niðurstöðu dómsmála sem eiga að skera úr ágreiningi um þetta atriði.

 

Samninga með eftirstöðvar við fyrri endurreikning, sem reiknuðust í inneign á veltureikningi miðað við sama tímamark, þ.e. 16. júní 2010 þarf heldur ekki að leiðrétta á ný. Ofgreiðsla viðkomandi aðila hefur þegar verið leiðrétt.

 

Þörf á frekari dómafordæmum

Rétt er að árétta það sem fram kom í tilkynningu Lýsingar hinn 3. júní sl. að enn þarf frekari leiðbeiningar dómstóla áður en hægt verður að meta endanleg áhrif á samninga félagsins. Hafa ber í huga að Lýsing er aðili að nokkrum dómsmálum þar sem reynir á gildi fullnaðarkvittana við ýmsar aðstæður í endurreiknuðum samningum, en niðurstöðu í þessum málum er ætlað að skýra frekari ágreiningsefni, s.s. um þýðingu vanskila.

 

Að gefnu tilefni skal áréttað að Lýsing uppfyllir lagaskilyrði um fjárhagslegan styrk fjármálafyrirtækja og hefur þegar gert ráðstafanir til að mæta mögulegum útgreiðslum eða samningsniðurfærslum.

09.08.2013 - Andsvar vegna rangra fullyrðinga

Lýsing hf. var ítrekað borið röngum sökum í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

 

Umsjónarmenn þáttarins hafa miðlað andsvari Lýsingar í samræmi við niðurstöðu fjölmiðlanefndar 1. ágúst sl. vegna kvörtunar félagsins.

 

Andsvör Lýsingar voru svohljóðandi:

„Fjármálafyrirtækið Lýsing hf. var borið röngum sökum í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis 10. júní og 17. júlí síðastliðinn, til dæmis um að það afhendi ekki frumrit skuldabréfa þegar þau hafa verið greidd. Ásakanir þessar eiga ekki við rök að styðjast. Öðrum órökstuddum áburði og aðdróttunum í þættinum, svo sem að starfsmenn Lýsingar hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi, er jafnframt vísað á bug.“

Fleiri tilkynningar
Reiknivél
Gengi Lýsingar
GengistaflaGengi Lýsingar 16. Apríl 2014
GjaldmiðillKaupSala
BandaríkjadalurUSD111.57112.24
EvraEUR154.43155.36
SterlingspundGBP187.37188.50
Japanskt YenJPY1.091.09
Svissneskur FrankiCHF126.91127.68
Gengisþróun »
Fréttir